Reggio

Hugmyndafræðin

Hugmyndafræði Reggio Emilia er kennd við borgina Reggio Emilia á Norður-Ítalíu. Að baki þessari stefnu stendur
maður að nafni Loris Malaguzzi.[i] Hann hafði í 25 ár yfirumsjón með barnaheimilum og forskólum í Reggio. Hann mótaði með starfsmönnum sínum nýja uppeldsstefnu sem hefur að meginmarkmiði að hvetja börnin til þess að nota öll skilningarvit sín – málin sín hundrað. "Barn hefur 100 mál en er svipt 99" er heiti ljóðs eftir Loris Malaguzzi. Í uppeldsstarfinu í Reggio Emilia leggja menn áherslu á að börnin lifi ekki í tómarúmi heldur í sambandi við annað fólk. Árangrinum ná menn með því að bera virðingu fyrir barninu.  Barnið er eins og hljóðfæri. Það er um að gera að leika á sem flesta strengi. Uppeldisstarfið beinist með öðrum orðum að því að þroska öll skilningarvitin og alla hæfileika.  Í stað þess að líta á skynsemi og tilfinningar sem andstæður á að „leyfa höfðinu að fylgja líkamanum".  Sköpunargáfa er ekki guðsgjöf sem menn fá fyrirhafnarlaust upp í hendurnar.  Það þarf að hlúa að henni. Allt saman stuðlar þetta að því að fram kemur skapandi mannvera með æðra vitsmunalíf.

Samskipti barna og fullorðinna í sköpunarferlinu

Samskipti barna og fullorðinna skipta miklu í öllu starfi með börnum.  Hinn fullorðni er virkur í sköpunarferlinu og leiðir vinnuna áfram út frá áhuga barnanna.  Það þýðir ekki að hann/hún stjórni því sem barnið er að gera heldur hlustar viðkomandi af athygli, skráir hjá sér og spyr opinna spurninga þannig að barnið fái hvatningu og stuðning við það sem það er að fást við.  Mikilvægast er að skoða ferli sköpunarinnar en ekki einungis útkomuna.

Reynt er að viðhalda og örva forvitni barnanna og mikil áhersla er lögð á sjónskyn ásamt beitingu annarra skynfæra.  Í Reggio er litið svo á að sjónþjálfun leiði til lifandi og skapandi hugsunar.

Í Reggio Emilia er litið á börn sem sterka og hæfileikaríka einstaklinga

Umhverfið vegur stóran þátt í uppgötvun barnsins.  Nánasta umhverfi barnsins skiptir mestu máli, læra um sitt eigið umhverfi taka eftir því stóra og smáa sem styrkir sjálfsvitund þess.  Í Reggio Emilia er oft talað um umhverfið sem þriðja kennarann. Umhverfi leikskólans ( innan húss ) er skipulagt með það í huga að hafa áhrif, þannig er mikilvægt að rými sem börnin búa við sé í senn hvetjandi, aðlaðandi, verndandi og fallegt og að það sé hægt að breyta því. Rými má ekki vera of fast bundið í ákveðið form, heldur lifandi og breytilegt þannig að börnin sem í því dvelja fái tækifæri til að tjá sig á hundrað vegu.